Um vefeldhúsið

Ég heiti Áslaug Ósk Hinriksdóttir og er móðir 10 ára stúlku sem heitir Þuríður Arna Óskarsdóttir. Þuríður Arna hefur frá því í október 2004 glímt við erfið veikindi en hún er með heilaæxli sem hefur orsakað illvíga flogaveiki. Á þeim tæpu átta árum sem eru liðin síðan Þuríður veiktist hefur hún farið í tvær skurðaðgerðir, þar af eina í Boston. Hún hefur einnig farið í lyfjameðferð og þrisvar sinnum í geislameðferð, þar af einu sinni í Svíþjóð. Veikindin hafa sett sitt mark á Þuríði, sem í dag hefur hvorki líkamlegan né vitsmunalegan þroska á við jafnaldra sína, og þarf mikinn stuðning í daglegu lífi, m.a. við nám og fleira. Um tíma tókst að ná tökum á vexti æxlisins en síðan greindist það aftur í maí 2010 og hefur Þuríður verið að nýta það sem af er þessu ári til að safna kröftum eftir geislameðferð.

Ein af afleiðingum veikinda Þuríðar er mikil óvissa um framtíðina og nú veit í raun enginn hvernig henni mun reiða af, hvort æxlið geti tekið sig upp aftur eða hverjir afkomumöguleikar hennar verða. Börn, sem hafa glímt við veikindi á við hennar, eiga til dæmis ekki kost á að tryggja sig gegn skakkaföllum með sama hætti og aðrir. Við foreldrar hennar höfum því alla tíð verið meðvituð um að það sé okkar hlutverk að sjá um að tryggja afkomu Þuríðar Örnu í framtíðinni og höfum fengið til þess góðan stuðning mjög víða.

Undanfarin misseri hefur áhugi minn á matargerð sífellt aukist og þá sérstaklega á matreiðslu kjúklings.  Gæluverkefni mitt er fésbókarsíða með kjúklingauppskriftum og í tengslum við hana hafa ýmsir hvatt mig til að gefa út bók með sniðugum uppskriftum fyrir venjulegt heimilishald. Með hjálp góðra vina komst ég í samband við Holtakjúkling sem ákvað að leggja sitt af mörkum í framtíðarsjóð Þuríðar Örnu og gefa út bækling með kjúklingauppskriftum sem hafa verið vinsælar á mínu heimili. Bæklingurinn hefur nú litið dagsins ljós og vonandi njótið þið þess að matreiða réttina í honum. Samhliða útgáfu hans hef ég nú opnað vefsíðuna www.vefeldhus.is og ætla að nota hana til að deila enn frekar reynslu minni af matargerð og uppskriftum sem mitt heimafólk kann að meta.

Ég vil þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg og sérstakar þakkir fær vinkona mín Elsa Nielsen sem hefur hvatt mig áfram og á allan heiður að útliti bæklingsins. Ég þakka Valdísi Thor ljósmyndara fyrir hennar framlag, Holtakjúklingur fær innilegar þakkir fyrir bjóða mér að taka þátt í þessu verkefni og Gísli Karlsson hjá Nethönnun fær þakkir fyrir hjálp við uppsetningu á þessari vefsíðu.

Með kærri kveðju,
Áslaug Ósk Hinriksdóttir